Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 23  —  23. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



1. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 2009“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum, sbr. 1. gr. laga nr. 61/2009, kemur: 31. desember 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 74/2009 var gerð breyting á ákvæði til bráðabirgða VII í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Breytingin fólst í því að bætt var við ákvæðið heimild fyrir slitastjórn fjármálafyrirtækis, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti. Heimildin gilti til 31. desember 2009 en tilefni hennar var að slitastjórn SPRON taldi sig ekki hafa lagaheimild til að greiða skuldir vegna launa.
    Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem var kveðinn upp 14. júlí 2010, var Askar Capital hf. tekið til slitameðferðar og var félaginu skipuð slitastjórn. Meðal verka slitastjórnar er að annast meðferð krafna meðan á slitum stendur. Slitastjórn Askar Capital hf. telur fyrrgreint bráðabirgðaákvæði girða fyrir að henni sé heimilt að greiða starfsmönnum laun í uppsagnarfresti enda heimildin fallin úr gildi, sbr. framangreint.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistími í síðari málslið ákvæðis til bráðabirgða VII í lögum um fjármálafyrirtæki verði framlengdur til 31. desember 2010. Sá tímafrestur á að duga slitastjórn Askar Capital hf. þar sem kröfulýsingarfresti lýkur í október sama ár og boðað hefur verið til hluthafafundar 14. desember nk. Það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að víst sé að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.
    Frumvarpið varðar aðeins fjármálafyrirtæki. Hugmyndir hafa komið fram um hvort ekki væri eðlilegt að heimild í þessa veru gilti almennt um fyrirtæki sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta, þ.e. að skiptastjóri geti greitt skuldir vegna launa að því skilyrði uppfylltu að nægt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð. Viðskiptanefnd hvetur allsherjarnefnd til að skoða hið fyrsta hvort rétt væri að gera slíka breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.